Duplo-Verbundbeschläge
Mín reynsla af Duplo-skeifum er mjög góð, bæði sem vetrar- og sumarskeifur, sem venjuleg járning eða sjúkrajárning í sambandi við allskonar stoðkerfisvandamál. Í þessu myndbandi hér er útskýrt á myndrænan hátt hvað Duplo-skeifur eru og hvað gerir þær svona sérstakar og hestvænar.
Í stuttu máli finnst mér að Duplo-skeifur sameini kosti þess af hverju við járnum hross og kostina fyrir hestinn að vera ójárnaður. En hér ætla ég að tala aðeins nánar um nokkra af þeim kostum sem framleiðandinn gefur upp á heimasíðunni sinni og ég get staðfest út frá minni eigin reynslu, bæði sem hestaeigandi/knapi og sem hestasjúkraþjálfari:
Duplo-skeifur sameina tvö mismunandi efni - málm og plast - og fjölmarga kosti þeirra á hófum hestsins.
Skeifurnar eru með stöðugum málmkjarna, þökk sé honum þá hafa þær mikla mótstöðu gegn því að það snúist uppá þær og halda þær lögun sinni yfir langan tíma. Þetta stuðlar að góðri endingu járningarinnar og kemur einnig í veg fyrir óæskilegan þrýsting á sóla. Plastið sem umlykur málmkjarnann er tiltölulega mjúkt og dregur verulega úr höggum og hátíðni titringi þegar hesturinn stígur niður; hesturinn nýtur góðs af mjög ánægjulegri gönguupplifun. Hreyfanleiki plastsins styður við náttúrulega lárétta og lóðrétta snúningshæfileika hornhylkisins. Brúin á hælasvæðinu örvar einnig blóðflæði til hóftungunnar. Duplo-skeifurnar stuðla þar með náttúrulegri virkni hófsins.
Venjuleg Duplo-skeifa er léttari en hefðbundinn járnskeifa með viðeigandi viðbótarbúnaði (brú á hælssvæðinu + höggdeyfandi botnar/fleygar + snjókransar). Minni þyngd verndar stoðkerfi og hófvegg. Einnig er talað um að náttúrulegir gripeiginleikar hófa séu líkari gripeiginleikum Duplo-skeifa en járnskeifa.
Naglagötin ganga í gegnum málmkjarnann, það tryggir að fjaðrarhausinn geti ekki gengið upp í gegnum naglagatið; Að auki hafa fjaðrirnar öruggt hald jafnvel með óreglulegum hreyfingum. Þar sem naglagötin eru gerð sem aflöng göt þvert yfir hvítu línuna er hægt að staðsetja fjaðrirnar hverja fyrir sig og aðlaga þær að óreglulegum hófformum.
Duplo-skeifur lágmarka hættu á meiðslum. Mjúkt plastið og ávalar brúnir Duplo-skeifurnar, auk þess að fjaðrirnar standa ekki uppúr, draga úr hættu á meiðslum í hjörðinni eða við ágrip miðað við hefðbundnar járnskeifur eða hvassa kanta ójárnaðs hófs.
Tilvaldar fyrir vetrarjárningu þar sem Duplo-skeifurnar eru með mótaða plastbrún sem gengur upp í hófinn og kemur að mestu í veg fyrir að snjór, drulla og efni úr reiðhölinni safnist upp; einnig er hægt að nota skafla og brodda eftir þörfum.
Þær sitja vel á hófnum þar sem að gaddarnir á hófhlið Duplo-skeifunnar þrýstast í burðarvegginn og koma í veg fyrir að skeifan snúist á hófnum. Einnig eru til Duplo-skeifur með uppslætti sem styðja ennfremur við að þær sitji áreiðanlega á hófnum.
Duplo-skeifur eru einfaldar í notkun, ef járningarmaðurinn hefur nauðsynlega faglega þekkingu og færni til að negla og hnykkja skeifur, og ef tekið er tillit til ákveðinna þátta. Járninguna er hægt að framkvæma með algengum járningaverkfærum og venjulega hóffjöðrum. Auðvelt er að laga Duplo-skeifurnar að viðkomandi hófform og þörfum hestins.
Góðar fréttir fyrir keppnisfólk, en Duplo-skeifur eru einnig leyfðar af FEIF í keppnum.
Umboðsaðili fyrir Duplo á Íslandi er með síðu á Facebook þar sem hægt er að skoða allar vörur ásamt verðum undir Myndir/Album (Photos/Albums). Það eru alltaf nokkrar tegundir og stærðir til. Sumar- og vetrarskeifur, skaflar, broddar o.fl. Auk þess er hægt að finna þar útskýringar á hvernig er best að finna rétta stærð af skeifum og einnig myndband með járningarleiðbeiningar. Ef þið finnið ekki þá vöru sem ykkur vantar hafið þá samband. Hægt er að fá pantaðar allar vörur sem óskað er eftir beint frá Duplo framleiðandanum með næstu sendingu.
Að lokum er hér mjög skemmtilegt og fræðandi myndband um hönnun, járningu og síðan notkun á Duplo-skeifum á Missouri Fox Trotter búgarðinum í Arizona.